„Þetta er allt stór misskilningur“

Karim Benzema
Karim Benzema AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Karim Benzema segir að umræða um hlutverk hans í fjárkúgun á hendur félaga hans í landsliðinu, Mathieu Valbuena, sé byggð á misskilningi. Benzema, sem leikur með spænska liðinu Real Madrid, reynir að útskýra sinn hlut í kynlífsmyndskeiðsmálinu í franska sjónvarpinu í dag.

Viðtalið mun birtast síðar í dag en það var tekið upp fyrirfram og tekið upp áður en forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, tjáði sig um franska landsliðið í gær. Valls sagði að aðeins leikmenn sem séu til fyrirmyndar eigi að leika fyrir hönd Frakklands á EM 2016.

„Þetta er allt stór misskilningur. Það eina sem ég gerði var að reyna að aðstoða. Það tengist hvorki fjárkúgun né kröfu um pening,“ sagði Benzema við dómara í byrjun nóvember, samkvæmt frétt Le Monde í dag en blaðið birti endurgerð úr vitnisburði Benzema í morgun.

Málið, sem snýst um að reynt var að kúga fé út úr Valbuena vegna myndskeið sem var stolið úr síma hans af kynmökum hans og unnustu hans, getur haft gríðarleg áhrif á stöðu Frakklands á EM. Benzema er bannað að hitta Valbuena og hvorugur þeirra tók þátt í leikjum gegn Englandi og Þýskalandi í síðasta mánuði.

Benzema er einn helsti sóknarmaðurinn í landsliði Frakka en þjálfari liðsins hefur um fleiri með að velja. Hefð er fyrir því innan franska landsliðsins (Les Blues) að þeir sem eru til vandræða fái ekki að spila með í alþjóðlegum keppnum.

Fjárkúgunarmálið hófst í júní þegar Valbuena lagði fram kæru hjá lögreglu eftir að maður hringdi í hann og sagðist hafa kynlífsmyndskeiðið undir höndum. Fjórir menn, þar á meðal æskuvinur Benzema, Karim Zenati, hafa verið ákærðir og handteknir vegna málsins.

Benzema á að hafa rætt málið við Valbuena í þjálfunarbúðum landsliðsins 5. október og hvatt hann til þess að hitta einn fjárkúgaranna og ganga frá málinu. Benzema segir að hann hafi enga þörf fyrir peningana og ekki heldur vinur hans, Zenati, sem starfar hjá fyrirtæki í eigu Benzema.

En lögreglan hleraði síma Benzema og símtal hans og Zenati vekur upp grunsemdir um að Benzema sé tengdari málinu en hann hefur viljað viðurkenna. Valbuena sagði í viðtali í síðustu viku að hann sé mjög ósáttur við Benzema út af málinu. 

Er þetta forsætisráðherra eða aðdándi Barcelona sem talar?

Alain Jakubowicz, lögmaður Benzema, segir í dag í viðtali við Le Parisien, að leikmaðurinn muni í viðtalinu sem birtist í dag biðja Valbuena afsökunar á ummælum sínum og aðkomu.

Jakubowicz segir ennfremur í viðtali við Le Parisien að skjóta á Valls fyrir ummæli forsætisráðherrans í gær. „Er þetta forsætisráðherrann sem talar eða er þetta aðdáandi Barcelona að tala um leikmann Real Madrid?“

Valls er ættaður frá Katalóníu og fékk á sig harða gagnrýni í júní þegar hann notaði þoku ríkisstjórnar Frakklands til þess að fljúga með sig og son sinn til Berlínar svo þeir gætu séð úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu þar sem Barcelona fór með sigur af hólmi gegn ítalska liðinu Juventus.

Jakubowicz sagði síðar við RTL útvarpsstöðina að hann myndi höfða mál gegn Le Monde vegna þessa að blaðið birti vitnisburð Benzema.

Le Monde

Le Parisien

Claudio Bravo og Karim Benzema
Claudio Bravo og Karim Benzema AFP
Alain Jakubowicz lögmaður Benzema
Alain Jakubowicz lögmaður Benzema AFP
Mathieu Valbuena og Karim Benzema
Mathieu Valbuena og Karim Benzema AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert