Benzema má snúa aftur í landsliðið

Svo gæti farið að Karim Benzema spili á EM eftir …
Svo gæti farið að Karim Benzema spili á EM eftir allt saman. AFP

Karim Benzema, framherji Real Madrid, er aftur orðinn gjaldgengur í franska landsliðið í knattspyrnu en hann hefur ekki verið með liðinu síðan hann var yfirheyrður í vetur vegna gruns um aðild að því að kúga fé út úr Mathieu Valbuena, liðsfélaga sínum í landsliðinu.

Benzema var ákærður fyrir hlutdeild í fjárkúgunarbroti félaga sinna sem hugðust kúga fé út úr Valbuena gegn því að birta ekki kynlífsmyndband af Valbuena sem þeir höfðu í sínum fórum.

Benzema var leystur úr gæsluvarðhaldi meðal annars gegn þeirri kröfu að hann hefði ekkert samband við Valbuena. Þar með var ljóst að landsliðsþjálfarinn Didier Deschamps gæti ekki valið báða leikmenn í landsliðið á sama tíma og reyndar var hvorugur leikmaðurinn í hópnum sem Deschamps valdi fyrir vináttulandsleiki í nóvember, þá fyrstu eftir að málið komst upp.

Krafan um að Benzema ætti ekki í neinum samskiptum við Valbuena var dreginn tilbaka eftir yfirheyrslur í síðasta mánuði, en þeirri ákvörðun var áfrýjað. Í dag varð svo ljóst að sú áfrýjun skilaði engu og því getur Deschamps valið bæði Valbuena og Benzema í leikina við Holland og Rússland í lok mánaðarins. Benzema er þó að jafna sig af meiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert