Færeyskur sigur í Meistaradeildinni

Adeshina Lawal skoraði sigurmark Víkings.
Adeshina Lawal skoraði sigurmark Víkings. AFP

Vikingur Eysturkommuna frá Færeyjum hafði betur gegn KF Trepça '89 frá Kósóvó, 2:1, í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Þórshöfn í kvöld. Sigurvegarinn úr einvíginu mætir FH í næstu umferð. 

Gunnar Vatnhamar kom Vikingi yfir eftir 17 mínútna leik en Fiton Hajdari jafnaði fyrir Trepça skömmu fyrir leikhlé. Nígeríumaðurinn Adeshina Lawal skoraði hins vegar sigurmark Víkings á 73. mínútu. Liðin mætast aftur 4. júlí næstkomandi í Kósóvó. 

Önnur úrslit urðu þau að FC Alashkert frá Armerníu vann FC Santa Coloma frá Andorra, 1:0, á heimavelli sínum. Europa FC frá Gíbraltar vann 2:1 útisigur á TNS frá Wales og Hibernians FC frá Möltu vann 2:0 heimasigur á FC Infonet frá Eistlandi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka