Barcelona sterkara án Neymar

Marc-André ter Stegen.
Marc-André ter Stegen. AFP

Þýski markmaðurinn Marc-André ter Stegen segir að Barcelona sé sterkara lið eftir að Neymar ákvað að fara til PSG í Frakklandi fyrir metupphæð. PSG borgaði 222 milljónir evra fyrir Neymar síðasta sumar og varð hann dýrasti knattspyrnumaður heims fyrir vikið. 

Án Neymar hefur Barcelona verið nær óstöðvandi og er liðið með sjö stiga forskot á Atlético Madríd á toppi spænsku A-deildarinnar og 17 stiga forskot á erkifjendur sína í Real Madrid. Barcelona er auk þess komið í úrslit spænska bikarsins og 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. 

„Það er erfitt að útskýra hversu hæfileikaríkur Neymar er,“ sagði ter Stegen við ESPN. „Hann var mikilvægur fyrir okkur innan og utan vallar. Við skiljum af hverju hann vildi fara. Hann vildi prófa nýja hluti og vinna aðra titla."

„Við fengum hins vegar nýja leikmenn í staðinn sem gerðu okkur enn sterkari en við vorum. Liðið okkar er öðruvísi núna, en það er virkilega gott og við leikum betur sem lið,“ sagði Þjóðverjinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert