Trúi því að enginn sé betri

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Cristiano Ronaldo segir að lykillinn að ótrúlegum árangri hans sé að trúa því að enginn sé betri en hann er og hann ráðleggur samherjum sínum í portúgalska landsliðinu að hafa sama viðhorf.

„Við ættum alltaf að trúa því að við erum bestir,“ sagði Ronaldo þegar hann tók á móti viðurkenningu sem leikmaður ársins í Portúgal.

„Þú þarft að hugsa stórt. Ég trúi því alltaf að enginn sé betri heldur en ég, úti á vellinum að minnsta kosti,“ sagði Ronaldo, sem leiddi Portúgala til sigurs á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir tveimur árum.

„Persónulega þá átti ég draumaár. Ég vann fimm titla, Meistaradeildina, UEFA Super-Cup, heimsmeistarakeppni félagsliða, Spánarmeistaratitilinn og meistaraleikinn á Spáni og var kjörinn besti knattspyrnumaður heims,“ sagði Ronaldo sem er staddur í Lissabon ásamt liðsfélögum sínum í portúgalska landsliðinu en það mætir Egyptum í vináttuleik á föstudaginn og mætir svo Hollandi þremur dögum síðar.

Ronaldo, sem er 33 ára gamall, hefur skorað 79 mörk í 147 leikjum með portúgalska landsliðinu sem leikur í riðli með Spáni, Marokkó og Íran á HM í Rússlandi í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert