Loksins með sterkasta lið

Frá leik Ísland og Mexíkó í fyrra. Frederik Schram og …
Frá leik Ísland og Mexíkó í fyrra. Frederik Schram og Orri Sigurður Ómarsson eru við öllu búnir. AFP

Karlalandslið Íslands og Mexíkó í knattspyrnu mætast í fjórða sinn í nótt, í Santa Clara í Kaliforníu, en þetta verður þó í fyrsta skipti sem Ísland mætir með sitt sterkasta landslið í leik gegn Mið-Ameríkuþjóðinni.

Leikurinn hefst klukkan tvö, aðfaranótt laugardags að íslenskum tíma en 19 að kvöldi í Kaliforníu.

Fyrri þrjár viðureignirnar hafa einnig allar farið fram í Bandaríkjunum og Mexíkóar hafa ávallt verið með mun fleiri af sínum fastamönnum en Íslendingar. Samt enduðu tveir fyrstu leikirnir með 0:0 jafntefli, í San Francisco í nóvember 2003, þar sem 17 þúsund manns mættu á völlinn, og í Charlotte í mars 2010, frammi fyrir 63 þúsund áhorfendum. Þeir Kolbeinn Sigþórsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Jón Guðni Fjóluson, sem þá voru allir 19 og 20 ára, tóku þátt í leiknum í Charlotte en þeir eru líka í Bandaríkjaríkjaferðinni núna.

Mexíkó vann síðan 1:0 sigur á hálfgerðu C-liði Íslands í Las Vegas í febrúar 2017 þar sem margir af fastamönnum Mexíkóa léku með. Um 30 þúsund manns sáu þann leik. Sex íslensku leikmannanna léku þar sinn fyrsta A-landsleik og þar var með í för aðeins einn sem nú er í 29 manna hópnum, markvörðurinn Frederik Schram.

Nú eru bæði Mexíkó og Ísland að búa sig undir lokakeppni HM í sumar, bæði lið verða skipuð leikmönnum sem eru að slást um að komast í endanlega HM-hópa sinna þjóða, og því er heldur meira í húfi en í hinum þremur viðureignunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert