Liverpool fór illa með City – Öruggt hjá Barcelona

Mohamed Salah kom Liverpool á bragðið í leiknum og fagnar …
Mohamed Salah kom Liverpool á bragðið í leiknum og fagnar hér ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Liverpool er í afar góðri stöðu eftir fyrri viðureignina gegn Manchester City í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. 3:0 sigur Liverpool var aldrei í hættu og stendur liðið vel að vígi í baráttunni um sæti í undanúrslitum.

Leikurinn var jafn í upphafi en á 12. mínútu varð ákveðinn vendipunktur þegar Mohamad Salah kom Liverpool yfir. Hann var þá áræðinn í teignum og fylgdi á eftir er skot Roberto Firmino var varið. Staðan 1:0 fyrir Liverpool.

Þetta kveikti svo sannarlega í heimamönnum á meðan þeir ljósbláu virtust ekki átta sig. Það virtist þó ekkert í kortunum þegar Alex Oxlade-Chamberlain kom Liverpool í 2:0 á 21. mínútu. Hann fékk þá boltann utan teigs og lét bara vaða og úr varð glæsilegt mark.

City-menn vissu ekki sitt rjúkandi ráð eftir þetta. Veislu Liverpool-manna var hins vegar ekki lokið því eftir rétt rúman hálftíma leik kom þriðja markið. Það skoraði Sadio Mané með skalla eftir glæsilega fyrirgjöf frá Salah. Staðan 3:0 og þannig var staðan í hálfleik.

Síðari hálfleikur var langt frá því að vera eins opinn og sá fyrri. Liverpool-menn lágu skipulega til baka og gáfu fá færi á sér, á meðan City leitaði logandi ljósi að því að lag stöðu sína. Plan Liverpool gekk hins vegar fullkomlega upp, City náði ekki að setja mark sitt á leikinn og öruggur 3:0 sigur Liverpool staðreynd.

Barcelona í góðri stöðu

Í hinum leik kvöldsins vann Barcelona 4:1 sigur á heimavelli gegn Roma í fyrri leik liðanna. Barcelona var 1:0 yfir í hálfleik efir sjálfsmark Rómverja. Annað sjálfsmark snemma í síðari hálfleik kom Börsungum í 2:0 áður en Gerard Pique skoraði þriðja mark heimamanna.

Edin Dzeko minnkaði muninn fyrir Roma sem gaf þeim mikilvægt útivallarmark, en Luis Suárez innsiglaði öruggan sigur Barcelona þegar skammt var eftir, lokatölur 4:1.

Síðari viðureignirnar fara fram þann 10. apríl.

Liverpool 3:0 Man. City opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert