Buffon hjólaði í dómarann eftir leik

Gianluigi Buffon lætur dómarann heyra það eftir vítaspyrnudóminn.
Gianluigi Buffon lætur dómarann heyra það eftir vítaspyrnudóminn. AFP

Markvörðurinn Gianluigi Buffon, goðsögn í knattspyrnuheiminum, var rekinn af velli í sínum síðasta Meistaradeildarleik í kvöld þegar Juventus féll úr leik eftir ótrúlegan leik gegn Real Madrid.

Real Madrid vann fyrri leikinn 3:0, en Juventus var 3:0 yfir þegar komið var í uppbótartíma. Michael Oliver, dómari leiksins, dæmdi þá vítaspyrnu á Juventus og Buffon brjálaðist. Hann ógnaði dómaranum og fékk rautt fyrir, en hann hélt áfram að gagnrýna Oliver eftir leik.

„Þú getur ekki eyðilagt drauma á þennan hátt undir lokin á ótrúlegri endurkomu með því að taka svona umdeilda ákvörðun. Að gera þetta þýðir bara að þú ert ekki með hjarta á réttum stað heldur algjört rusl. Ef þú getur ekki höndlað það að vera inni á vellinum áttu bara að sitja heima að borða snakk,“ er haft eftir Buffon eftir leik, en þetta var í fyrsta sinn sem hann fær rauða spjaldið í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert