Fyrrverandi Þórsari féll á lyfjaprófi

Joshua Wicks í leik með Þór.
Joshua Wicks í leik með Þór. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hinn bandaríski Joshua Wicks, sem lék tvö sumur í marki knattspyrnuliðs Þórs á Akureyri, er í dag á mála hjá sænska úrvalsdeildarliðinu IK Sirius en hann er nú í klípu.

Samkvæmt sænska fjölmiðlinum SportExpressen féll Wicks á lyfjaprófi sem hann var boðaður í eftir fyrsta deildarleik Sirius gegn Hammarby 1. apríl. Sýni úr Wicks greindi kókaín í blóði hans.

Wicks lék næsta leik á eftir, á meðan niðurstöður prófsins lágu ekki fyrir, en var svo óvænt tekinn úr liðinu fyrir þriðju umferðina. Twitter-síða félagsins sagði fjarveru hans tengjast persónulegum ástæðum en nú er ljóst hvers vegna hann var ekki með og hefur hann verið settur í tímabundið bann, bæði af sænska knattspyrnusambandinu sem og félaginu sjálfu, þangað til að dómur fellur í málinu.

Wicks er 34 ára gamall og lék um árabil í MLS-deildinni í Bandaríkjunum áður en hann gekk til liðs við Þór fyrir sumarið 2012. Hann spilaði sjö leiki í 1. deildinni og hjálpaði liðinu að komast upp í úrvalsdeild þar sem hann lék 14 leiki sumarið eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert