Þeir fengu bara eitt færi

Arsene Wenger var svekktur í kvöld.
Arsene Wenger var svekktur í kvöld. AFP

„Miðað við hvernig leikurinn þróaðist voru þetta mjög slæm úrslit fyrir okkur, en við verðum að fara jákvæðir á útivölinn og reyna að komast áfram," sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal eftir 1:1-jafntefli á móti Atlético Madrid í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. 

Arsenal-menn spiluðu manni fleiri í 80 mínútur, en þrátt fyrir það tókst þeim ekki að vinna. Alexandre Lacazette skoraði fyrsta mark leiksins, en Antoine Griezmann jafnaði tíu mínútum fyrir leikslok. 

„Því miður gáfum við þeim mark upp úr engu, en við verðum að jafna okkur á þessum vonbrigðum og gera okkur klára í næsta leik."

„Við misstum af góðu tækifæri til að vinna. Við hefðum getað farið langt með að komast áfram í kvöld, en við náðum því ekki. Markmaðurinn þeirra varði vel og þeir gerðu vel í að skora þó þeir fengu bara eitt færi," sagði Wenger. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert