Buffon yfirgefur Juventus

Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. AFP

Markvörðurinn Gianluigi Buffon greindi frá því á fréttamannafundi í dag að hann muni yfirgefa Ítalíumeistara Juventus eftir leiktíðina.

Buffon, sem er 40 ára gamall, hefur staðið á milli stanganna hjá Juventus undanfarin 17 ár og spilar sinn síðasta leik með liðinu á laugardaginn þegar það mætir Verona í ítölsku A-deildinni.

„Leikurinn á laugardaginn verður minn síðasti leikur fyrir Juventus og ég held að það verði besta leiðin til að enda þetta frábæra ævintýri,“ sagði Buffon á fréttamannafundin í Torinó í dag.

„Ég hef átt frábæran tíma hjá þessu magnaða félagi og ég er virkilega þakklátur öllu því fólki sem ég hef verið með,“ sagði Buffon sem hefur orðið Ítalíumeistari með Juventus sjö ár í röð en leikurinn á laugardaginn verður 640. leikur hans með liðinu.

Buffon endaði feril sinn með ítalska landsliðinu í 2:0 tapi á móti Argentínu í mars en hann lék 176 leiki með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert