Þjálfarinn lofar Söru í hástert

Sara Björk Gunnarsdóttir með boltann á æfingu Wolfsburg á Valeri …
Sara Björk Gunnarsdóttir með boltann á æfingu Wolfsburg á Valeri Lobanovski-leikvanginum síðdegis, sólarhring fyrir úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. AFP

Stephan Lerch hefur lagt mikið traust á Söru Björk Gunnarsdóttur á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari Wolfsburg. Hann hefur notið nánast fullkomins tímabils hingað til, enda liðið búið að landa Þýskalandsmeistaratitlinum og þýska bikarmeistaratitlinum, og komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Lyon á morgun.

Lerch er menntaður kennari en vildi starfa við fótboltann og hafði verið aðstoðarmaður Ralf Kellermann, sem gerði Wolfsburg tvívegis að Evrópumeistara, áður en hann tók við sem aðalþjálfari síðasta sumar. Undir stjórn Lerch hefur Sara átt sitt besta tímabil á ferlinum, spilað nánast alla leiki og meðal annars skorað 6 mörk í 8 leikjum í Meistaradeildinni þrátt fyrir að spila aftarlega á miðjunni. Lerch er óspar á hrósið í garð íslenska landsliðsfyrirliðans:

„Hún er fullkominn atvinnumaður, mikill liðsmaður og leiðtogi inni á vellinum. Með leik sínum og líkamstjáningu getur hún lyft liðinu upp á annað stig og leitt það áfram,“ segir Lerch í opinberri leikskrá fyrir úrslitaleikinn, þar sem segir jafnframt að í stjörnum prýddu liði Wolfsburg hafi Sara staðið upp úr á leiktíðinni.

„Hún er frábær í loftinu og stórkostleg í öllum návígum. Hún leggur líka allt í sölurnar til að lið sitt vinni,“ segir Lerch.

„Utan vallar er hún mjög glöð og jákvæð manneskja. Hún sér til þess að það sé alltaf gott andrúmsloft í búningsklefanum. Hún er alltaf tilbúin að koma á framfæri góðum skilaboðum,“ segir þessi 33 ára gamli þjálfari.

Blaðamaður Morgunblaðsins og mbl.is er í Kiev og flytur fréttir tengdar Söru, undirbúningi og eftirmálum úrslitaleiksins.

Þjálfarinn Stephan Lerch fylgist með leikmönnum sínum á æfingu Wolfsburg …
Þjálfarinn Stephan Lerch fylgist með leikmönnum sínum á æfingu Wolfsburg í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert