Fyrstir í 42 ár til að vinna þrisvar í röð

Leikmenn Real Madrid með Evrópubikarinn í Kiev í kvöld.
Leikmenn Real Madrid með Evrópubikarinn í Kiev í kvöld. AFP

Real Madrid varð í kvöld fyrsta félagið í 42 ár til að verða Evrópumeistari þrjú ár í röð og þetta er samtals í fjórða sinn sem slíkt afrek er unnið.

Real Madrid var fyrsta félagið til þess en frá því fyrst var leikið um Evrópumeistaratitilinn árið 1956 vann spænska félagið keppnina í fimm ár í röð, eða samfleytt til ársins 1960.

Ajax frá Hollandi varð Evrópumeistari þrisvar í röð, frá 1971 til 1973.

Bayern München frá Vestur-Þýskalandi tók þá við og vann næstu þrjú ár, 1974 til 1976.

Real Madrid hefur nú endurtekið leikinn fyrst félaga.

Englendingar halda þó enn metinu yfir flesta sigra eins lands í keppninni. Ensk félög urðu Evrópumeistarar sex ár í röð, frá 1977 til 1982. Liverpool vann þá þrívegis, Nottingham Forest tvisvar og Aston Villa einu sinni.

Spánverjar hafa nú unnið fimm ár í röð, Real Madrid fjórum sinnum og Barcelona einu sinni, og svo vann Real Madrid sjálft fimm fyrstu árin eins og áður kom fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert