„Zidane getur skrifað sig á spjöld sögunnar“

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur stýrt liðinu til sigurs …
Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur stýrt liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu undanfarin tvö ár. AFP

Christian Karembeu, fyrrverandi leikmaður Real Madrid, telur að knattspyrnustjórinn Zinedine Zidane geti skrifað sig á spjöld sögunnar í kvöld þegar Real mætir Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu klukkan 18:45 á Ólympíuleikvanginum í Kiev.

Zidane tók við Real Madrid í janúar 2016 af Rafael Benitez og hefur liðið unnið keppnina síðustu tvö ár undir stjórn Frakkans en hann og Karembeu voru liðsfélagar í franska landsliðinu í átta ár.

„Þegar við spiluðum saman þurfti allt að vera fullkomið. Menn þurftu að vanda allar sendingar, sýna baráttuanda og leggja mikið á sig inni á vellinum. Þegar hann gerðist knattspyrnustjóri sá maður strax að hann vildi sjá sömu hluti hjá leikmönnum sínum. Það er ákveðin ára yfir honum og hann sér leikinn öðruvísi en margir aðrir. Hann er með mikla fullkomnunaráráttu og það sést á árangrinum sem hann hefur náð,“ sagði Karembeu í samtali við Daily Mail.

„Ef Madrid tekst að vinna, þriðja árið í röð mun hann skrifa sig á spjöld sögunnar. Ekki bara hjá Real Madrid sem besti knattspyrnustjóri í sögu félagsins heldur líka sem einn besti knattspyrnustjóri allra tíma. Þetta félag er þekkt fyrir að slá met og kannski tekst Zizou að slá eitt metið enn. Sem gamall leikmaður Real Madrid vil ég að sjálfsögðu sjá liðið vinna þriðja árið í röð,“ sagði Frakkinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert