Börsungar setja pressu á Griezmann

Frakkinn Antoine Griezmann þarf að taka ákvörðun um framtíð sína …
Frakkinn Antoine Griezmann þarf að taka ákvörðun um framtíð sína áður en heimsmeistaramótið í Rússlandi hefst. AFP

Antoine Griezmann, leikmaður spænska knattspyrnufélagsins Atlético Madrid er mikið í umræðunni þessa dagana en hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona að undanförnu. Frakkinn er sagður efstur á óskalista spænska félagsins en hann er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið fyrir 87 milljónir punda í sumar.

Griezmann hefur hins vegar dregið það á langinn að ákveða framtíð sína og eru forráðamenn Barcelona orðnir pirraðir á seinagangi leikmannsins en það er Mail sem greinir frá þessu. Í vor var talið næsta víst að Griezmann myndi semja við Börsunga um leið og tímabilið kláraðist en hann er nú sagður íhuga það að skrifa undir nýjan samning við Atlético Madrid.

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético vill halda leikmanninum en hann skilur hins vegar vel að Frakkinn vilji reyna fyrir sér annarsstaðar. Barcelona hefur sett aukna pressu á Griezmann og gefið honum tvær vikur til þess að taka ákvörðun um framtíð sína en þeir vilja klára sín mál áður en heimsmeistaramótið í Rússlandi hefst þann 14. júní.

Griezmann verður í eldlínunni með Frökkum á mótinu og ætlar liðið sér stóra hluti í Rússlandi eftir vonbrigðin í úrslitaleik EM í Frakklandi 2016 þar sem liðið tapaði fyrir Portúgal í framlengdum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert