Lagerbäck fær mikið hrós

Lars Lagerbäck heilsar upp á Kára Árnason og Gylfa Þór …
Lars Lagerbäck heilsar upp á Kára Árnason og Gylfa Þór Sigurðsson fyrir leikinn gegn Íslendingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sven-Göran Eriksson fyrrverandi landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu hrósar Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara Norðmanna í hástert og segir að Norðmenn verði með í næstu úrslitakeppni Evrópumótsins.

Eriksson var á Ullevaal leikvanginum í Osló í gær og sá landa sinn stjórna Norðmönnum til sigurs gegn Panama 1:0 í vináttuleik. Þetta var fjórði sigurleikur Norðmanna í röð en sem kunnugt báru Norðmenn sigurorð af Íslendingum 3:2 á Laugardalsvellinum um síðustu helgi.

„Fjórir leikir eru fjórir leikir. Það er alltaf erfitt að vinna landsleiki. Úrslitin á móti Íslendingum voru frábær og fyrri hálfleikurinn á móti Panama var mjög góður,“ sagði Eriksson við fréttamenn eftir leikinn.

„Lagerbäck er skipulagður fótboltaþjálfari. Hann kann sinn fótbolta. Á móti liðum hans er erfitt að skora.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert