Hólmbert skoraði fyrir toppliðið

Hólmbert Aron Friðjónsson að skora fyrir Aalesund.
Hólmbert Aron Friðjónsson að skora fyrir Aalesund. Ljósmynd/Aalesund

Aalesund hafði betur gegn Ull Kisa á heimavelli í norsku B-deildinni í fótbolta í dag, 3:2. Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði annað mark Aalesund í leiknum úr vítaspyrnu og jafnaði í 2:2 á 66. mínútu.

Framherjinn hefur átt góðu gengi að fagna hjá Aalesund og skorað átta mörk í 12 leikjum í deildinni. Hólmbert lék allan leikinn í dag, eins og  Aron Elís Þrándarson og Adam Örn Arnarson. Daníel Leó Grétarsson var hins vegar ekki í leikmannahópi Aalesund í dag.

Íslendingaliðið er með 26 stig eftir 12 leiki og með fjögurra stiga forskot á Sogndal á toppi deildarinnar. 

Orri Sigurður Ómarsson lék allan leikinn fyrir HamKam sem tapaði fyrir Mjöndalen á útivelli, 2:1. HamKam er í 9. sæti með 16 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert