Spænska pressan kveður Ronaldo

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Spænskir fjölmiðlar kveðja stórstjörnuna Cristiano Ronaldo í dag en allt bendir til þess að hann yfirgefi Real Madrid og gangi í raðir Ítalíumeistara Juventus.

„Ciao CR7“ er fyrirsögnin í spænska blaðinu Mundo Deportivo en þar segir enn fremur: Real Madrid hefur samþykkt brottför hans. Lykildagurinn er í dag (föstudag) og Juventus vill ganga frá hlutunum svo það geti tilkynnt félagaskiptin.“

Spænska blaðið AS segir að Ronaldo geti verið kynntur fyrir stuðningsmönnum Juventus í Torino í fyrramálið á deginum 7/7 en númerið 7 er táknrænt númer fyrir Ronaldo.

Blaðið Marca greinir frá því að Ronaldo hafi gefið Andrea Agnelli forseta Juventus þau svör að hann vilji fara til félagsins. „Löngun Ronaldo að spila fyrir Juventus er sterk,“ segir í Marca.

Fjölmiðlar á Ítalíu segja að Juventus hafi boðið Ronaldo fjögurra ára samning sem muni tryggja honum 30 milljónir evra í laun á ári.

Ronaldo gekk í raðir Real Madrid frá Manchester United árið 2009 og hefur átt ótrúlegri velgengni að fagna með Madridarliðinu. Hann hefur tvisvar sinnum orðið spænskur meistari, tvisvar sinnum bikarmeistari og hampað Evrópumeistaratitlinum fjórum sinnum á síðustu fimm árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert