Matthías nær ekki Evrópuleikjunum gegn Val

Matthías Vilhjálmsson hefur verið frá keppni í tæpa ellefu mánuði.
Matthías Vilhjálmsson hefur verið frá keppni í tæpa ellefu mánuði. Ljósmynd/Rosenborg

Matthías Vilhjálmsson, knattspyrnumaður hjá norska meistaraliðinu Rosenborg, nær ekki að spila með því gegn Val þegar liðin mætast í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu á Hlíðarenda næsta miðvikudagskvöld.

Matthías er kominn af stað á ný eftir tæplega árs fjarveru eftir að hann sleit krossband í hné í ágúst á síðasta ári. Þá hafði hann verið á miklum skriði með Þrándheimsliðinu og skorað alls 16 mörk á tímabilinu.

Býst við að spila í mánuðinum

„Ég er loksins farinn að æfa af fullum krafti og nálgast það að geta farið að spila á ný. Ég reikna með því að verða kominn á fullt eftir tvær til þrjár vikur. Ég kem með liðinu til Íslands í Valsleikinn og æfi með því en býst ekki við því að ná þessum tveimur leikjum,“ sagði Matthías við Morgunblaðið í gær en seinni leikur liðanna fer fram í Þrándheimi 17. júlí.

Hann er bjartsýnn á að komast inn á völlinn í þessum mánuði. „Við spilum fleiri Evrópuleiki, hvort sem við vinnum Val eða ekki, þannig að ég gæti náð leikjum fyrir mánaðamótin,“ sagði Matthías en frá næstu helgi er norska úrvalsdeildin í fríi til 4. ágúst.

Þá leikur Rosenborg við nágranna sína í Ranheim á útivelli. Það er sannkallaður stórleikur því Rosenborg er í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar og nýliðar Ranheim eru öllum að óvörum í þriðja sætinu, einu stigi á eftir stóra bróður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert