Cristiano Ronaldo til Juventus

Cristiano Ronaldo hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Juventus.
Cristiano Ronaldo hefur skrifað undir fjögurra ára samning við Juventus. AFP

Cristiano Ronaldo er genginn til liðs við ítalska knattspyrnufélagið Juventus en þetta staðfesti ítalska félagið á heimasíðu sinni núna rétt í þessu. Ronaldo kemur til félagsins frá Real Madrid á Spáni og skrifar undir fjögurra ára samning við Ítalíumeistarana. 

Félagaskiptin hafa legið lengi í loftinu en Ronaldo gaf það sterklega í skyn, eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Kiev, að hann væri á förum frá Real Madrid. Hann bað svo um að vera seldur frá félaginu, eftir að Portúgal féll úr leik á heimsmeistaramótinu í Rússlandi.

Kaupverðið á leikmanninum hefur ekki verið staðfest ennþá en það er talið vera í kringum 100 milljónir evra en það samsvarar rúmlega 12,5 milljörðum íslenskra króna. Ronaldo hefur spilað með Real Madrid frá árinu 2009 þar sem að hann hefur fjórum sinnum orðið Evrópumeistari og tvívegis Spánarmeistari.

Hann hefur verið valinn besti knattspyrnumaður heims, undanfarin tvö ár en samtals hefur hann hlotið Ballon d'Or verðlaunin fimm sinnum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert