Liðin eru áþekk í fótbolta

Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Við erum að fara að spila við eitt stærsta liðið á Norðurlöndunum. Þessi tími hjá fótboltamönnum er einn sá skemmtilegasti því þá skellur Evrópukeppnin á," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is. Valur leikur við Rosenborg í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. 

Ólafur hefur trú á sínum mönnum í leiknum og segir helsta muninn á liðunum vera líkamlegt atgervi leikmanna. 

„Við höfum trú á að möguleikarnir okkar séu ágætir. Við trúum því að við getum unnið leikinn og við ætlum okkur að reyna það. Þetta lið spilar týpískan 4-3-3 bolta, ekkert ósvipaðan og við. Fljótt á litið eru liðin áþekk í fótbolta, en þeir eru í betra standi en við og þeir eru með meiri hlaupagetu."

Ólafur segir stærsta markmiðið framan af leik að verja markið. 

„Í gegnum tíðina höfum við farið í þessa Evrópukeppni og fengið á okkur mörk á heimavelli sem er slæmt. Til að byrja með munum við verja markið okkar eins lengi og við þurfum og getum og sjá svo til hvaða aðstæður koma upp í leiknum."

Rosenborg tók reglulega þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kringum aldamótin og hafði það fádæma yfirburði í norskum fótbolta. 

„Þeir hafa ekki sömu yfirburði í Noregi og þeir höfðu þá. Þetta er ekki sama stórlið og það var fyrir nokkrum árum, en stórlið engu að síður sem er mjög vel mannað," sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert