Valsmenn skelltu Rosenborg

Tobias Thomsen með boltann í kvöld.
Tobias Thomsen með boltann í kvöld. mbl.is/Hari

Íslandsmeistarar Vals gerðu sér lítið fyrir og skelltu norska meistaraliðinu Rosenborg, 1:0, í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu að Hlíðarenda í kvöld. Liðin mætast á ný í Noregi í næstu viku.

Bæði lið lágu þétt til baka og treystu á skyndisóknir í byrjun leiks. Nokkurt jafnræði var því með þeim lengst af, en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn jókst pressa norska liðsins. Þrátt fyrir það var nánast ekkert um opin færi og var markalaust þegar flautað var til hálfleiks.

Svipað var uppi á teningnum eftir hlé. Bæði lið voru varkár í sinni spilamennsku og leikurinn var nokkuð lokaður. Á 62. mínútu kom besta marktilraun leiksins fram að þessu þegar Tobias Thomsen tók boltann á lofti utan teigs og smellti honum í stöngina á marki norska liðsins. Glæsilegt skot sem virtist kveikja í mönnum og fóru leikmenn beggja liða að henda sér í tæklingar í kjölfarið.

Eins og fyrir hlé náði norska liðið undirtökunum þegar líða tók á hálfleikinn án þess þó að skapa sér teljandi færi. Valsmenn voru ekki síður líklegri í sínum skyndisóknum og það sýndi sig á 84. mínútu þegar Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði sigurmark leiksins.

Guðjón Pétur Lýðsson gaf þá fyrir markið, Tobias Thomsen fékk boltann hægra megin í teignum og renndi honum fyrir fætur Eiðs Arons í markteignum og skoraði hann af stuttu færi. Rosenborg gaf allt síðustu mínútur án þess þó að ná að skora og fögnuðu Valsmenn vel og innilega mögnuðum sigri.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en liðin mætast á ný í Þrándheimi eftir viku.

Valur 1:0 Rosenborg opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert