Hefðum getað skorað 5-6 mörk

Davíð Þór Viðarsson lék vel á miðjunni hjá FH í …
Davíð Þór Viðarsson lék vel á miðjunni hjá FH í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég átti ekki von á þessu miðað við það sem maður var búinn að sjá af þessu liði," sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins á Lahti frá Finnlandi á útivelli í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta í dag. 

„Þeir hafa náð góðum úrslitum á Finnlandi og ég bjóst ekki við svona stórum sigri. Ég vissi að við ættum góða möguleika í þessu einvígi en þetta eru aðeins betri úrslit en ég átti von á."

Þrátt fyrir að úrslitin hafi komið Davíð á óvart, fannst honum þau verðskulduð. 

„Ef maður horfir á leikinn í heild sinni vorum við sterkara liðið, þeir fengu ekki eitt almennilegt færi í leiknum á meðan við hefðum getað skorað 5-6 mörk. Þetta var sanngjarnt og við erum ánægðir með að hafa komið okkur í góða stöðu."

„Það hjálpaði að skora snemma, það sló þá út af laginu. Það var ákveðinn grundvöllur og aðalástæðan fyrir að við náðum í þessi úrslit. Við vörðumst vel og þegar við fórum upp hinum megin vorum við hættulegir."

Guðmundur Kristjánsson og Rennico Clarke þurftu báðir að fara af velli vegna höfuðmeiðsla, en Davíð segir að þeir séu í lagi. 

„Þeir eru nokkuð góðir. Gummi fékk helvíti myndarlegan skurð á höfuðið en hann er þannig týpa að ef einhver þolir þetta þá er það Guðmundur Kristjánsson. Þetta er annars ekkert alvarlegt og þeir ættu að vera tilbúnir í næsta leik."

Síðari leikurinn fer fram í Hafnarfirði eftir viku. 

„Þetta er ekki búið en þetta eru mjög góð úrslit sem koma okkur í góða stöðu. Við verðum að spila þennan leik og sjá til þess að þeir ná ekki að gera leik úr þessu," sagði Davíð að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert