Aron sendur heim úr æfingabúðum

Aron Jóhannsson fagnar marki með Werder Bremen.
Aron Jóhannsson fagnar marki með Werder Bremen.

Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson hefur verið sendur heim úr æfingabúðum þýska félagsins Werder Bremen í Zillertal í Austurríki.

Skýrt er frá því á heimasíðu Bremen að Aron og Jannes Vollert yfirgefi æfingabúðirnar í dag vegna meiðsla og fari til Bremen til meðhöndlunar af þeim sökum. Aron glímir við ökklameiðsli en þjálfari liðsins, Florian Kohfeldt, staðfesti þetta við heimasíðu félagsins.

Aron hefur verið í röðum Bremen í þrjú ár en hefur aðeins náð að spila samtals 27 leiki í þýsku 1. deildinni á þeim tíma. Hann hefur misst talsvert úr vegna meiðsla og þá var hann ekki í náðinni hjá þáverandi þjálfara liðsins um nokkurt skeið.

Bremen hafnaði í 11. sæti af 18 liðum í deildinni á síðasta tímabili og byrjar nýtt tímabil á heimaleik gegn Hannover 24. ágúst. Aron hefur því enn ágætt svigrúm til að jafna sig af meiðslunum í tæka tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert