Bendtner óttast stórslys gegn Val

Nicklas Bendtner átti ekki góðan leik og tapar hér skallaeinvígi …
Nicklas Bendtner átti ekki góðan leik og tapar hér skallaeinvígi gegn Eiði Aroni Sigurbjörnssyni sem skoraði sigurmark Vals, 1:0. Morgunblaðið/Hari

„Það yrði engin krísa hjá okkur en auðvitað væri það stórslys,“ svaraði Nicklas Bendtner, danski landsliðsmaðurinn og framherji norska liðsins Rosenborg, er hann var spurður í viðtali við Adresseavisen hvað það myndi þýða að falla úr leik á móti Val í forkeppni Meistaradeildarinnar í knattspyrnu. 

Valsmenn unnu fyrri leik liðanna á Hlíðarenda, 1:0, og eru því í ágætri stöðu fyrir síðari leikinn sem fram fer í Þrándheimi í kl. 17:45 í dag. Bendtner náði sér alls ekki á strik í fyrri leik liðanna og var slakastur allra í liði Rosenborg að mati Adresseavisen. 

Hann var í byrjunarliðinu á kostnað Aleksander Søderlund sem byrjaði á bekknum en Kåre Ingebrigtsen, þjálfari Rosenborg, á von á því að þeir verði báðir í byrjunarliðinu í dag. 

„Miðað við hvernig leikurinn spilaðist á Íslandi væri það sniðugt að hafa tvo framherja í vítateignum,“ sagði Ingebrightsen og bætti við að tímabilið yrði ekki skelfilegt, þótt Rosenborg falli úr leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert