Ramos lætur Klopp heyra það duglega

Ramos og Salah í rimmunni frægu.
Ramos og Salah í rimmunni frægu. AFP

Sergio Ramos, fyrirliði spænska knattspyrnufélagsins Real Madrid, er ekki vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool eftir að Mohamed Salah, sóknarmaður Liverpool, meiddist á öxl eftir samskipti sín við leikmanninn í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor í Kiev. Leiknum lauk með 3:1-sigri Real Madrid en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ekki sáttur með tæklinguna og sagði að hún ætti helst heima í fjölbragðaglímu.

Ramos var spurður út í þessi ummæli þýska stjórans á blaðamannafundi í dag en Real Madrid undirbýr sig nú fyrir evrópska súperbikarinn þar sem liðið mætir Atlético Madrid í Tallinn á morgun. „Þetta er ekki fyrsti úrslitaleikurinn sem Klopp tapar. Kannski vill hann nota þetta sem afsökun og taka athyglina frá tapinu með því að láta svona hluti út úr sér.“

„Sumir af okkur hafa spilað og verið í hæsta gæðaflokki undanfarin ár, ég er ekki viss um að hann geti sjálfur sagt það sama,“ sagði Ramos sem var lítið að skafa af því. Spánverjinn er orðinn afar þreyttur á umræðunni í kringum tæklinguna frægu og er þetta ekki í fyrsta skiptið sem hann skýtur fast á leikmenn og þjálfarateymi Liverpool vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert