Hálftómur völlur í Madrid

Toni Kroos þakkar áhorfendum stuðninginn en á bak við hann …
Toni Kroos þakkar áhorfendum stuðninginn en á bak við hann má sjá glitta í hálftóma stúkuna. AFP

Þrátt fyrir að knattspyrnulið Real Madrid hafi unnið góðan 2:0 sigur á Getafe í gærkvöld eru ákveðin hættumerki á lofti í Madrid-borg. Aðeins 48.466 manns mættu á völlinn og hefur mætingin á Santiago Bernabeu ekki verið verri síðan 2008/2009 en eftir það tímabil var Cristiano Ronaldo keyptur.

Aðdáendur Real Madrid eru góðu vanir og sætta sig aðeins við það besta. Félagið hefur í gegnum tíðina stært sig af því að kaupa til sín bestu leikmenn heims. Þetta var ekki raunin í sumar og reyndar var það svo að félagið seldi sína stærstu stjörnu, Cristiano Ronaldo, til Juventus. Real Madrid hefur ekki keypt neina alþjóðlega stjörnu í stað hans ef undanskilinn er markvörðurinn Thibaut Courtois. Það voru því fá ný andlit í liði Real Madrid sem gæti hafa dregið úr áhuga fólks.

Annað sem gæti hafa haft áhrif á slæma mætingu var leiktíminn en leikurinn fór fram seint að kvöldi. Þetta gæti hafa hindrað unga aðdáendur til þess að mæta á völlinn sem þurftu að fara á skikkanlegum tíma í rúmið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert