Sara bendir UEFA á ártalið

Sara Björk Gunnarsdóttir og Pernille Harder, lengst til hægri á …
Sara Björk Gunnarsdóttir og Pernille Harder, lengst til hægri á mynd, fagna marki með Wolfsburg. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, er meðal þeirra sem bent hafa á ákveðið misrétti í tengslum við verðlaunahóf UEFA, knattspyrnusambands Evrópu, sem fram fer í Mónakó 30. ágúst.

Pernille Harder, liðsfélagi Söru hjá Þýskalandsmeisturum Wolfsburg, er ein þriggja sem tilnefndar eru sem knattspyrnukona ársins hjá UEFA. Hún kveðst afar stolt af tilnefningunni en bendir jafnframt á þá staðreynd að hún muni ekki geta mætt í lokahófið þar sem hún muni sama dag spila með danska landsliðinu í keppni á vegum UEFA, undankeppni HM. Flest kvennalandslið Evrópu standa í ströngu dagana í kringum hófið.

Ada Hegerberg og Amandine Henry eru einnig tilnefndar en ættu að eiga heimangengt. Það er þó vegna þess að Hegerberg hefur tekið sér hlé frá norska landsliðinu og Henry er í franska landsliðinu sem tekur ekki þátt í undankeppni HM, vegna þess að Frakkland heldur lokakeppnina.

Mohamed Salah, Cristiano Ronaldo og Luka Modric eru tilnefndir í karlaflokki en enginn þeirra á fyrir höndum leik 30. eða 31. ágúst.

Sara óskar Harder til hamingju með tilnefninguna á Twitter og tekur undir gagnrýni Harder á það að valin sé dagsetning sem henti körlunum en ekki konunum. Bendir Sara á að nú sé árið 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert