Ferdinand lætur leikmenn PSG heyra það

Liverpool vann sanngjarnan sigur á PSG í Meistaradeild Evrópu í …
Liverpool vann sanngjarnan sigur á PSG í Meistaradeild Evrópu í gær. AFP

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, var ekki hrifinn af spilamennsku franska stórliðsins Paris SG í gær þegar liðið heimsótti Liverpool á Anfield í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Liverpool vann leikinn, 3:2, þar sem Roberto Firmino skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma. Ferdinand starfar í dag sem sparkspekingur hjá BT Sport og hann lét leikmenn franska liðsins heyra það eftir að flautað hafði verið til leiksloka á Anfield í gær.

„Liverpool mætti til leiks eins og maður hafði spáð fyrir. Það var mikill kraftur og áræðni í þeirra leik. Það sama verður ekki sagt um PSG. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með liðið og leikmennina. Það var engin ákefð og spilamennska franska liðsins minnti mig á einhvern heiðursleik.“

„Fremstu menn liðsins höfðu engan áhuga á því að verjast. Ég veit ekki hvort það hafi verið upplegg þjálfarans, að þeir myndu hanga frammi allan leikinn en ástæðan fyrir því að þeir töpuðu var sú, að þeir nenntu ekki að verjast,“ sagði Ferdinand pirraður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert