Komu meiðslin í veg fyrir sölu Alfreðs?

Alfreð Finnbogason skoraði þrennu í síðasta leik.
Alfreð Finnbogason skoraði þrennu í síðasta leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, hafði glímt við meiðsli frá því að undirbúningstímabilið með Augsburg í Þýskalandi hófst í sumar og þar til að hann skoraði þrennu í sigri á Freiburg um helgina. Á vefmiðli hins vinsæla þýska tímarits Kicker er þeirri spurningu velt upp hvort Alfreð hefði ekki verið keyptur til „stærra“ félags í sumar ef hann hefði verið heill heilsu Samkvæmt Kicker er orðrómur þess efnis nokkuð hávær, en markahrókurinn er með samning við Augsburg sem gildir til ársins 2020.

„Auðvitað má velta þessu fyrir sér en þá þyrfti að koma mjög gott tilboð,“ sagði Alfreð við Kicker spurður um málið.

„Mér líður vel hérna. Hjá Augsburg hef ég fullt traust frá öllum. Það breytti engu þó að ég væri meiddur í sumar. Það er heldur ekki sniðugt að skipta um félag þegar maður er meiddur,“ sagði Alfreð sem áður hefur spilað í Grikklandi, á Spáni, í Hollandi, Svíþjóð, Belgíu og á Íslandi þar sem þessi 29 ára gamli Grindvíkingur sló fyrst í gegn með Breiðabliki.

„Það voru alltaf ástæður fyrir því að ég þurfti að flytja mig um set. Annaðhvort stóð ég mig vel og var keyptur eða þá að ég fékk ekki að spila og varð að breyta til. Það var ekki ætlunin að spila í svona mörgum löndum en það hefur verið gaman að kynnast ólíkum löndum og ólíkri menningu,“ segir Alfreð. Hann segir sjálfstraustið gott eftir þrennuna um helgina en að hann sé alltaf með báða fætur á jörðinni, það sé einn af hans styrkleikum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert