Hefði átt að missa starfið

Joachim Löw.
Joachim Löw. AFP

Michael Ballack, fyrrverandi fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu, segir að landsliðsþjálfarinn Joachim Löw hefði átt að missa starf sitt eftir ömurlegt gengi þýska landsliðsins á HM í Rússlandi í sumar.

Undir stjórn Löw höfnuðu Þjóðverjar í neðsta sæti í sínum riðli sem ríkjandi heimsmeistarar og komu heim með skottið á milli lappanna eftir heimsmeistaramótið.

Ballack, sem var fyrirliði þýska landsliðsins á árunum 2004-10, er fyrsti fyrrverandi landsliðsmaðurinn sem segir að reka hefði átt Löw eftir HM.

„Ég var hissa eins og margir aðrir að hann hafi fengið að halda áfram starfi sínu,“ segir Ballack sem lék 98 leiki með þýska landsliðinu.

Hann er búinn að stýra landsliðinu í langan tíma og stundum ættir þú að segja að hlutirnir virki ekki lengur,“ segir Ballack en Löw hefur þjálfað landsliðið undanfarin tólf ár. Undir hans stjórn urðu Þjóðverjar heimsmeistarar 2014 og í þriðja sæti 2010 og þeir höfnuðu í öðru sæti á EM 2008. Í maí framlengdi Löw samning sinn við þýska knattspyrnusambandið til ársins 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert