Mark Sverris dugði skammt

Sverrir Ingi Ingason var á skotskónum í Rússlandi í dag.
Sverrir Ingi Ingason var á skotskónum í Rússlandi í dag. mbl.is/Eggert

Sverrir Ingi Ingason var á skotskónum fyrir Rostov þegar liðið tapaði 2:1 á útivelli fyrir Lokamotic Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Anton Miranchuk kom Lokomotiv Moskvu yfir á 26. mínútu en Sverrir Ingi jafnaði metin, mínútu síðar, eftir hornspyrnu.

Það var svo Saba Kverkvelia sem skoraði sigurmark leiksins á 60. mínútu en ásamt Sverri voru þeir Ragnar Sigurðsson og Björn Bergmann Sigurðarson báðir í byrjunarliði Rostov í leiknum. Viðar Örn Kjartansson sat allan tímann á varamannabekk Rostov í dag en liðið er í fjórða sæti deildarinnar með 18 stig eftir fyrstu ellefu leiki sína, 7 stigum minna en topplið Zenit sem á leik til góða.

Þá var Hörður Björgvin Magnússon í byrjunarliði CSKA Moskvu sem vann 2:0-útisigur gegn Anzhi en Arnór Sigurðsson kom inn á sem varamaður í liði CSKA á 68. mínútu. Nikola Vlasic kom CSKA yfir á 31. mínútu og Fedor Chalov innsiglaði sigur CSKA Moskvu á 71. mínútu en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert