Mikið í húfi hjá Glódísi Perlu í næstu leikjum

Glódís Perla Viggósdóttir
Glódís Perla Viggósdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, á von um að verða sænskur meistari með liði sínu Rosengård þegar tvær umferðir eru eftir af deildakeppninni.

Rosengård er í öðru sæti og á mánudaginn mætir það efsta liðinu Piteå.

„Við eigum tvo leiki eftir í deildinni og þeir eru á móti liðunum í 1. sæti og 3. sæti (Kopparbergs/Gautaborg). Eins og staðan er núna geta þrjú lið unnið deildina. Við vitum að þetta er í okkar höndum og þurfum ekki að treysta á önnur úrslit. Er það góð staða að vera í því ef við vinnum okkar leiki þá verðum við meistarar. Piteå er vissulega þremur stigum á undan okkar en ef við vinnum þær þá förum við upp fyrir því við erum með miklu betri markatölu.

Í síðasta leiknum þurfum við þá einnig að vinna Gautaborg. Á milli þessara leikja er síðari leikurinn gegn Slavia Prag í Meistaradeildinni. Nú eigum við fjóra þýðingarmikla leiki á stuttum tíma. Ef við spilum vel úr okkar spilum þá getum við á næstunni orðið meistarar og farið í 8 liða úrslit Meistaradeildarinnar,“ sagði Glódís þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar.

Krafa að komast í 8 liða úrslit

Fyrri leikur Rosengård gegn Slavia Prag fór fram í Svíþjóð í gærkvöldi eða eftir að viðtalið var tekið.

Tékkarnir unnu óvæntan sigur, 3:2, og Glódís og samherjar eiga því erfitt verkefni fyrir höndum í Prag eftir tvær vikur en liðið er þrautreynt í þessari keppni og gæti vel snúið blaðinu við.

Spurð út í markmiðin hjá félaginu í Meistaradeildinni sagði Glódís árangur liðsins á undanförnum árum setja svip sinn á það. „Félagið á ruglaða sögu í Meistaradeildinni. Við lifum svolítið á því hversu vel liðið hefur staðið sig í keppninni í gegnum árin og fyrir vikið er félagið ofarlega í styrkleikaröðun. Er það bara jákvætt og hjá félaginu þykir ekkert minna boðlegt en að komast í 8-liða úrslitin.

Við lendum alltaf í því að fá sterkasta liðið úr öðrum styrkleikaflokki. Í fyrra var það Chelsea og nú Slavia. Þetta er því aldrei auðvelt fyrir okkur,“ sagði Glódís og blaðamaður spyr hvort hún sé ekki orðin leið á að mæta tékknesku landsliðskonunum. Í liði Slavia Prag eru allnokkrar úr landsliði Tékkland sem Ísland gerði tvívegis jafntefli við í undankeppni HM. Kostaði það íslenska landsliðið sæti á HM.

Sjá allt viðtalið við Glódísi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert