Hólmar mögulega með slitið krossband

Hólmar Örn Eyjólfsson gæti verið lengi frá.
Hólmar Örn Eyjólfsson gæti verið lengi frá. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hólmar Örn Eyjólfsson þurfti að fara af velli eftir aðeins sex mínútna leik er Levski Sofia mætti Cherno More í 16-liða úrslitum búlgarska fótboltans í dag. Hólmar var borinn af velli og að sögn varnarmannsins er óttast að krossband í hægra hné sé slitið. 

„Ég fann eitthvað snúast í hnénu og sársauka sem fylgdi. Ég hef ekki lent í neinum hnémeiðslum áður þannig get lítið sagt um hvað þetta er, en ég fer í myndatöku á morgun. Þeir eru hræddir um þetta sé krossbandið en það kemur í ljós á morgun," sagði Hólmar í samtali við mbl.is í dag. 

Hólmar er lykilmaður í Levski Sofia og var hann í byrjunarliði íslenska landsliðsins í vináttuleiknum gegn Frökkum og svo leiknum gegn Svisslendingum í Þjóðadeild UEFA fyrr í mánuðinum. 

Til að bæta gráu ofan á svart, tapaði Levski leiknum í vítaspyrnukeppni, en staðan eftir venjulegan leiktíma og framlengingu var 2:2. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert