United og Juventus töpuðu

Leory Sané að skora fyrir Manchester City í kvöld.
Leory Sané að skora fyrir Manchester City í kvöld. AFP

Franska liðið Lyon varð síðasta liðið til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta en riðlakeppninni lauk í kvöld.

Shakhtar Donetsk og Lyon mættust í úrslitaleik um annað sætið í riðlinum. Lyon dugði jafntefli og 1:1 varð niðurstaðan í leiknum. Í hinum leik riðilsins hafði Manchester City betur á móti Hoffenheim og City vann riðilinn. Hoffenheim komst yfir með marki frá Andrej Kramaric úr vítaspyrnu en Leroy Sané svaraði fyrir City með tveimur mörkum.

Manchester United tókst ekki að færa sér í nyt tap Juventus gegn Young Boys en United tapaði fyrir Valencia á Spáni 2:1. Carlos Soler kom Valencia í 1:0 á 17. mínútu og Phil Jones tvöfaldaði forystuna fyrir heimamenn þegar hann skoraði skrautlegt sjálfsmark á 47. mínútu með skoti utan vítateigs. Marcus Rashford klóraði í bakkann fyrir United á 87. mínútu.

Juventus tapaði fyrir Young Boys 2:1 í Sviss. Guillaume Hoarau kom Yong Boys í 2:0 áður en Paolo Dybala minnkaði muninn fyrir Juventus á 80. mínútu. Juventus vann riðilinn en United hafnaði í öðru sæti.

Mikið fjör var í leik Ajax og Bayern München sem léku hreinan úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum en bæði lið voru komin áfram. 3:3 jafntefli urðu úrslitin þar sem tvö rauð spjöld fóru á loft. Ajax komst 2:1 yfir þegar átta mínútur voru til leiksloka en Bæjarar skoruðu tvö mörk á þremur mínútum áður en Ajax jafnaði metin með sjálfsmarki. Jafnteflið dugði Bayern til að vinna riðilinn. Robert Lewandowski skoraði tvö af mörkum þýsku meistaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert