Arnór Ingvi og Jón Guðni komust áfram

Arnór Ingvi og félagar fagna marki í kvöld.
Arnór Ingvi og félagar fagna marki í kvöld. AFP

Arnór Ingvi Traustason og félagar hans í sænska liðinu Malmö tryggðu sér sæti í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Jón Guðni Fjóluson og samherjar hans í Krasnodar verða einnig í pottinum þegar dregið verður til 32-liða úrslitanna á mánudaginn.

Malmö sótti tyrkneska liðið Besiktas heim og fagnaði 1:0 sigri sem fleytti liðinu upp í annað sætið. Marcus Antonsson skoraði sigurmarkið á 51. mínútu en stundarfjórðungi síðar var portúgalski landsliðsmaðurinn Ricardo Quaresma í liði Besiktas rekinn af velli. Arnór Ingvi fór af velli á 75. mínútu.

Malmö fylgir belgíska liðinu Genk í 32-liða úrslitin en Genk batt enda á ævintýri norska liðsins Sarpsborgar. Genk vann 4:0 en liðið komst í 2:0 á fyrstu 5 mínútum leiksins. Genk endaði með 11 stig, Malmö 9, Besiktas 7 og Sarpsborg rak lestina með 4 stig.

Jón Guðni Fjóluson lék allan tímann með rússneska liðinu Krasnodar sem steinlá fyrir Sevilla 3:0. Það kom ekki að sök því liðið fór áfram í 32-liða úrslitin þar sem Standard Liege varð að sætta sig við markalaust jafntefli á útivelli gegn Akhisarspor. Sevilla vann riðilinn en liðið fékk 12 stig eins og Krasnodar en hafði betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Standard fékk 10 stig og Akhisarspor 1.

Chelsea tapaði sínum fyrstu stigum en Lundúnaliðið gerði 2:2 jafntefli á útivelli gegn Vidi. Willian og Oliver Giroud skoruðu mörkin fyrir Chelsea sem var búið að vinna riðilinn fyrir leikinn í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert