Yfirlýsing frá Barcelona

Adrien Rabiot í leik með PSG.
Adrien Rabiot í leik með PSG. AFP

Forráðamenn spænska knattspyrnufélagsins Barcelona hafa mikinn áhuga á að fá miðjumanninn Adrien Rabiot frá PSG. Félagið segist hafa rætt við PSG um leikmanninn, en hafnar á sama tíma að hafa haft beint samband við Frakkann, enda væri það brot á reglum.

Rabiot er samningslaus næsta sumar og mega félög utan Frakklands ræða við hann í janúar og semja við hann um frjálsa sölu fyrir næsta tímabil. Rabiot hefur einnig verið orðaður við Arsenal og Liverpool, en nú bendir allt til þess að hann leiki á Spáni á næstu leiktíð. 

Dagblöð í Frakklandi ásökuðu í vikunni Barcelona um ólöglegar viðræður við Rabiot, en spænska félagið neitar sök í yfirlýsingu.  

„FC Barcelona vill koma því á framfæri að félagið hefur ekki brotið nein lög í sambandi við leikmenn Paris Saint-Germain. Við höfum í tvígang rætt við félagið um leikmenn, fyrst í ágúst og svo fyrir viku síðan. Í báðum tilvikum var rætt við félagið um áhuga okkar á Rabiot og ekki leikmanninn," sagði í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert