Robben á leið til Japans?

Arjen Robben.
Arjen Robben. AFP

Japan gæti orðið næsti áfangastaður hollenska knattspyrnumannsins Arjen Robben sem yfirgefur þýska meistaraliðið Bayern München eftir tímabilið.

Robben er orðaður við japanska úrvalsdeildarliðið FC Tokyo og það kemur fram í japanska blaðinu Nippon að það sé líklegt að hann geri samning við félagið en fleiri japönsk lið hafa sýnt áhuga á að fá Hollendinginn til liðs við sig.

Það hefur færst í vöxt að stór nöfn í fótboltanum hafi samið við lið í Japan og til að mynda leika Spánverjarnir Andrés Iniesta og Fernando Torres og Þjóðverjinn Lukas Podolski í japönsku úrvalsdeildinni.

Robben, sem er 35 ára gamall, hefur leikið með Bayern München frá árinu 2009 og hefur á þeim tíma orðið sjö sinnum Þýskalandsmeistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert