PSG með pálmann í höndunum

Frakklandsmeistarar PSG tóku stórt skref í átt að 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu þegar þeir unnu 2:0-sigur gegn Manchester United á Old Trafford. Paul Pogba fékk rautt spjald undir lok leiks.

Staðan var markalaus í hálfleik þrátt fyrir nokkuð fjörugan leik en snemma í seinni hálfleik komst PSG yfir þegar Presnel Kimpembe skoraði af fjærstöng eftir frábæra hornspyrnu Ángel Di María. Argentínumaðurinn lagði einnig upp seinna mark leiksins þegar hann renndi boltanum þvert fyrir markið á Kylian Mbappé sem reyndist varnarmönnum United á tíðum erfiður í kvöld með sinn ógnvekjandi hraða.

United komst lítið áleiðis í tilraunum sínum til þess að minnka muninn og ekki bætti úr skák að bæði Jesse Lingard og Anthony Martial meiddust í fyrri hálfleiknum og fóru af velli. Pogba fékk svo rautt spjald undir lokin er hann fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Dani Alves. Pogba verður því ekki með þegar liðin mætast í París 6. mars.

Þetta er fyrsta tap United eftir að Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær tók við stjórn liðsins skömmu fyrir jól.

Nítján ára með tvö gegn Porto

Hinn 19 ára gamli Nicolo Zaniolo skoraði bæði mörk Roma sem vann Porto 2:1 á Ítalíu. Mörkin skoraði hann með sex mínútna millibili eftir miðjan seinni hálfleik en Adrián náði að færa Porto mikilvægt útivallarmark þegar hann minnkaði muninn á 79. mínútu.

Man. Utd - PSG, 0:2
(Presnel Kimpembe 63., Kylian Mbappé 70.)
Roma - Porto, 2:1
(Nicolo Zaniolo 70., 75. - Adrian López 78.)

Dani Alvés stekkur hæst í fagnaðarlátum PSG.
Dani Alvés stekkur hæst í fagnaðarlátum PSG. AFP
Kylian Mbappé kemur PSG í 2:0 á Old Trafford í …
Kylian Mbappé kemur PSG í 2:0 á Old Trafford í kvöld. AFP
Man. Utd 0:2 PSG opna loka
90. mín. Luke Shaw (Man. Utd) fær gult spjald Fyrir brot á Alves.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert