Tíu leikmenn City sneru taflinu við

Raheem Sterling fagnar sigurmarkinu.
Raheem Sterling fagnar sigurmarkinu. AFP

Manchester City er í afar góðum málum eftir fyrri leikinn við Schalke í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. City hafði betur á útivelli, 3:2, þrátt fyrir að lenda manni færri í stöðunni 2:1 fyrir Schalke. 

City byrjaði mikið betur og var búið að fá nokkur færi þegar Sergio Agüero skoraði auðvelt mark eftir hrikaleg mistök hjá Ralf Fährmann í marki Schalke á 18. mínútu. Spilamennska Schalke batnaði eftir markið og jafnaði Nabil Bentaleb úr víti á 38. mínútu, sem dæmd var á Nicolás Otamendi fyrir hönd. 

Sex mínútum síðar fékk Schalke annað víti, er Fernandinho braut klaufalega af sér innan teigs. Aftur fór Bentaleb á punktinn og aftur skoraði hann og sá til þess að Schalke var með 2:1-forystu í hálfleik. 

Vont varð verra fyrir City á 68. mínútu því Otamendi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt og lék City því einum færri í rúmar 20 mínútur. Það styrkti hins vegar Englandsmeistarana.

Leroy Sáne, sem er uppalinn hjá Schalke, jafnaði leikinn með stórglæsilegu marki beint úr aukaspyrnu á 85. mínútu og Raheem Sterling fullkomnaði svo viðsnúninginn á síðustu mínútunni. Hann skoraði þá af stuttu færi eftir langa spyrnu fram hjá Ederson og 3:2-sigur City varð staðreynd. 

Nabil Bentaleb skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik.
Nabil Bentaleb skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik. AFP
Schalke 2:3 Man. City opna loka
90. mín. Raheem Sterling (Man. City) skorar 2:3 - Jahérna hér! Ederson sparkar boltanum fram á Sterling, sem er allt í einu kominn einn á móti Fahrmann og skorar. Tíu leikmenn City eru búnir að snúa þessu við!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert