Þægilegt hjá Frökkum og Tyrkir unnu úti

Frakkar fagna einu marka sinna í Chisinau í Moldóvu í …
Frakkar fagna einu marka sinna í Chisinau í Moldóvu í kvöld. AFP

Frakkar koma ágætlega hvíldir til leiks gegn Íslandi á Stade de France á mánudagskvöldið, allavega ef marka má hve þægilegan útisigur þeir unnu á Moldóvu, 4:1, í H-riðli undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu í Chisinau í gærkvöld.

Staðan var orðin 3:0 í hálfleik. Antoine Griezmann skoraði á 24. mínútu, Raphaël Varane þremur mínútum síðar og Olivier Giroud bætti þriðja markinu við á 36. mínútu. Kylian Mbappé skoraði síðan fjórða markið undir lokin eftir rólegan síðari hálfleik en Vladimir Ambros náði að svara fyrir heimamenn áður en yfir lauk.

Tyrkir sóttu Albani heim til Skhodër og unnu þar mikilvægan útisigur, 2:0. Burak Yilmaz kom Tyrkjum yfir á 21. mínútu og þeir höfðu eins marks forystu í hálfleik. Hakan Calhanoglu bætti við marki á 55. mínútu.

Á mánudag leikur Tyrkland við Moldóvu, Andorra við Albaníu og Frakkland við Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert