Tottenham áfram eftir ótrúlegan leik

Fernando Llorente fagnar markinu sem skaut Tottenham í undanúrslit.
Fernando Llorente fagnar markinu sem skaut Tottenham í undanúrslit. AFP

Tottenham mætir Ajax í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu, þrátt fyrir 4:3-tap fyrir Manchester City í ótrúlegum leik í átta liða úrslitunum í Manchester í kvöld. Tottenham fer áfram með útivallarmörkum, en samanlögð úrslit urðu 4:4. 

Leikurinn byrjaði með lygilegum látum því staðan var orðin 2:2 eftir ellefu mínútur. Raheem Sterling kom City á bragðið með marki á 4. mínútu en Heung-Min Son skoraði tvö mörk á þriggja mínútna kafla og kom Tottenham í 2:1 á 10. mínútu. 

Mínútu síðar jafnaði Bernardo Silva og á 21. mínútu skoraði Sterling sitt annað mark og var staðan í hálfleik 3:2, Manchester City í vil. Lærisveinar Guardiola þurftu hins vegar að skora eitt mark í viðbót til að eiga möguleika á að fara áfram. 

Það mark kom á 59. mínútu þegar Sergio Agüero skoraði og breytti stöðunni í 4:2. Á 73. mínútu kom hins vegar þriðja mark Tottenham og það gerði varamaðurinn Fernando Llorente af stuttu færi eftir hornspyrnu. Vildu einhverjir meina að Spánverjinn hafi skorað með hendinni, en eftir myndbandsdómgæslu stóð markið. 

City-liðið reyndi allt hvað það gat til að skora eitt mark í viðbót og tryggja sér sæti í undanúrslitum. Sergio Agüero kom boltanum í netið í uppbótartíma og allt varð vitlaust í Manchester, þangað til markið var dæmt af vegna rangstöðu. City fékk ekki annað færi og Tottenham-menn gátu fagnað. 

Man. City 4:3 Tottenham opna loka
90. mín. Davinson Sánchez (Tottenham) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert