Arnór skoraði fyrir CSKA

Arnór Sigurðsson skoraði í dag.
Arnór Sigurðsson skoraði í dag. AFP

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson skoraði fyrir CSKA Moskvu þegar liðið sigraði Anzhi Makhachkala í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en öll þrjú Íslendingaliðin léku í dag. 

CSKA vann 2:0 og skoraði Arnór síðara mark liðsins á 55. mínútu en þetta er fjórða mark Skagamannsins í deildinni á þessu tímabili. Honum var síðan skipt af velli á 69. mínútu. Hörður Björgvin Magnússon var einnig í byrjunarliði CSKA og lék allan leikinn. 

Rostov tapaði á heimavelli 1:2 fyrir Lokomotiv frá Moskvu. Ragnar Sigurðsson lék allan tímann í vörn Rostov en gömul kempa reyndist honum erfið, Jefferson Farfan, sem skoraði bæði mörk Lokomotiv. Björn Bergmann Sigurðarson kom inn á sem varamaður hjá Rostov á 82. mínútu. 

Krasnodar gerði 1:1 jafntefli gegn Grozny á útivelli en Jón Guðni Fjóluson sat á varamannabekknum. 

CSKA er í 3. sæti deildarinnar með 44 stig, Krasnodar í 4. sæti með 43 stig og Rostov í 7. sæti með 35 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert