Barcelona ætlar að selja leikmenn í sumar

Philippe Coutinho
Philippe Coutinho AFP

Spænsku meistararnir í Barcelona ætla að hræra í leikmannahópnum sínum í sumar og selja nokkra leikmenn en þetta staðfesti forseti félagsins við blaðamenn eftir tapið í úrslitaleik spænska bikarsins í gær.

Þrátt fyrir að hafa hafnað á toppi deildarinnar hafa undanfarnar vikur verið erfiðar hjá félaginu. Fjögurra ára sigurgöngu í bikarnum lauk í gær og þá hrapaði liðið illa úr undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Liverpool fyrr í mánuðinum.

„Við munum fá nokkra nýja leikmenn en einnig selja aðra,“ sagði Josep Bartomeu, forseti Barcelona. „Við erum búnir að fá De Jong til liðs við okkur og við munum vinna að því að bæta fleirum við og selja nokkra.“

Hollenski miðjumaðurinn Frenkie De Jong mun ganga til liðs við Barcelona frá Ajax þann 1. júlí og þá er félagið talið vera á höttunum eftir varnarmanninum Matthijs de Ligt sem einnig leikur með Ajax.

Þeir Philippe Coutinho, Samuel Umtiti, Malcom og Andre Gomes eru aftur á móti þeir leikmenn Barcelona sem félagið er sagt vilja losna við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert