Tyrkir óhressir í Leifsstöð

Tyrkir fagna eftir að hafa sigrað Frakka 2:0 í gærkvöld. …
Tyrkir fagna eftir að hafa sigrað Frakka 2:0 í gærkvöld. Þeir eru ekki sáttir við móttökurnar í Leifsstöð í kvöld. AFP

Tyrkneska landsliðið í knattspyrnu sem mætir því íslenska í undankeppni Evrópumóts karla á Laugardalsvellinum á þriðjudagskvöldið kom til landsins í kvöld með leiguflugi frá Konya í Tyrklandi.

Tyrknesku leikmennirnir munu hafa verið afar óhressir með miklar tafir í Leifsstöð en þar þurftu þeir að fara í gegnum sérstakt öryggistékk og vegabréfaskoðun, sem mun hafa tekið talsverðan tíma.

Samkvæmt heimildum mbl.is stafar þetta af því að Tyrkirnir flugu frá „óvottuðum“ flugvelli í heimalandi sínu, í Konya þar sem leikurinn við Frakka fór fram í gærkvöld, og þar af leiðandi þurfti slíkt tékk að fara fram hér á landi.

Einhverjir leikmannanna lýstu yfir óánægju sinni á samfélagsmiðlum og það hefur heldur betur kveikt í tyrkneskum knattspyrnuáhugamönnum heima fyrir en þeir eru farnir að láta alls kyns kveðjur til Íslands og KSÍ dynja á sambandinu í gegnum miðlana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert