Áhrif Ajax á FC Barcelona

Louis van Gaal og José Mourinho störfuðu saman hjá FC …
Louis van Gaal og José Mourinho störfuðu saman hjá FC Barcelona. AFP

Svo virðist sem gamla stórveldið í Amsterdam, Ajax, sé að ná vopnum sínum á knattspyrnuvellinum að nýju á evrópskan mælikvarða. Liðið missti naumlega af úrslitaleiknum í Meistaradeildinni á sorglegan hátt í vor og lék til úrslita í Evrópudeildinni gegn Manchester United árið 2017. Kunnuglegt stef er nú spilað þar sem FC Barcelona keypti einn af lykilmönnum Ajax: Frenkie de Jong.

Fyrir viku síðan birtist hér grein um hollenska knattspyrnustjórann Rinus Michels sem stýrði bæði Ajax og Barcelona. Nú verður reynt að hnykkja betur á þeim miklu tengslum sem eru á milli þessara liða sem virtust á góðri leið með að mætast í úrslitum í vor en svo fór ekki.

Johan Cruyff var lærisveinn Rinus Michels en átti sjálfur flottan feril sem knattspyrnustjóri. Áhrif hans á FC Barcelona voru enn meiri en þau sem Michels hafði. Cruyff er á sérstökum stalli hjá Barca sem er ánægjulegt. Hann yfirgaf þó félagið sem knattspyrnustjóri á fremur leiðinlegum nótum. Árið 1996 var ljóst að félagið vildi ekki að hann héldi áfram. Cruyff hafði ekki tekist að endurnýja liðið með góðum árangri. Daninn Michael Laudrup var til dæmis látinn fara til Real Madrid 1994 og lék vel eins og hann gerði alls staðar þar sem hann kom við á sínum glæsilega ferli.

Ronald Koeman, Johan Cruyff og Michael Laudrup.
Ronald Koeman, Johan Cruyff og Michael Laudrup. Reuters

Áhrif Cruyff á FC Barcelona voru hins vegar gífurlega mikil. Almennt er litið svo á að Barca hafi öðlast sitt DNA undir stjórn Cruyff og sjálfsmyndin varð miklu sterkari hjá knattspyrnuliði félagsins. Fyrsti sigur Barca í Evrópukeppni meistaraliða kom undir stjórn Cruyff árið 1992. Barcelona vann þá Sampdoria 1:0 á Wembley í úrslitaleiknum og einn af lykilmönnum liðsins, Ronnie Koeman, þrumaði tuðrunni í netið úr aukaspyrnu. Rétt eins og hann var þekktur fyrir. Sampdoria hljómar ef til vill ekki hættulegur andstæðingur í dag en á þeim tíma tefldi liðið fram Roberto Mancini og Gianluca Vialli. Var liðið í nokkur ár í fremstu röð í Evrópu en sömu lið mættust í úrslitum Evrópukeppni bikarhafa 1989. Þá vann Barcelona 2:0. Í millitíðinni lentu Arnór Guðjohnsen og samherjar hans hjá Anderlecht í Sampdoria liðinu í úrslitaleik. Var það Evrópukeppni bikarhafa árið 1990 og skoraði Vialli bæði mörkin í 2:0 sigri áður en hann afhenti Arnóri treyju sína í leikslok.

Lið Barca undir stjórn Cruyff frá 1991 – 1994 er stundum kallað draumaliðið en þá vann Barca spænsku deildina fjögur ár í röð. Auk Laudrup og Koeman voru þar kappar eins og Hristo Stoichkov auk þess sem Romario bættist í hópinn árið 1993. Í liðinu voru sterkir Spánverjar enda var á þeim tíma ekki leyfilegt að tefla fram endalaust af erlendum leikmönnum í evrópskri knattspyrnu. José Mari Bakero var áberandi í þessu liði og markvörðurinn kunni Andoni Zubizarreta átti líklega sín bestu ár hjá Barca.  Margir muna eftir framherjanum hávaxna Julio Salinas. Aitor Begiristain var í liðinu en hann er á meðal stjórnenda Manchester City í dag. Þá kom inn liðið undir stjórn Cruyff vel spilandi og útsjónarsamur miðtengiliður að nafni Pep Guardiola.

Markmenn með virkasta móti

Cruyff þróaði að sjálfsögðu sinn eigin stíl sem knattspyrnustjóri þótti Michels hafi haft mest áhrif á hann að sögn Cruyff. Hann hafði sjálfur verið aðalleikmaðurinn í Total Football en var með ákveðnar áherslubreytingar frá því sem Michels notaði. Cruyff vildi gjarnan vera með snjallan sweeper sem gat tekið þátt í spilinu og þar smellpassaði að sjálfsögðu Koeman inn í þær hugmyndir.

Hollenska fótboltagoðsögnin Johan Cruyff (t.v.) ásamt öðrum snillingi, Frakkanum Michel …
Hollenska fótboltagoðsögnin Johan Cruyff (t.v.) ásamt öðrum snillingi, Frakkanum Michel Platini. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Cruyff vildi vera með liðið framarlega og þar með talda varnarlínuna. Í staðinn vildi hann að markvörður liðsins kæmi út fyrir vítateiginn. Tæki þátt í spilinu ef á þyrfti að halda og gæti hirt stungusendingar sem kæmu inn fyrir vörnina. Í þessu felst að sjálfsögðu áhætta en Cruyff leit svo á að þau tilfelli þar sem andstæðingur hefði kjark og getu til að nýta sér staðsetningu markvarðarins og skora væru svo fá að það réttlætti þetta útspil. Í úrslitaleik Barcelona og Manchester United í Evrópukeppni bikarhafa 1991 skoraði Mark Hughes, fyrrverandi leikmaður Barcelona, glæsilegt mark frá hliðarlínunni nánast sem í raun tryggði United 2:1 sigur. Glæsilegt og óvenjulegt mark sem sparkelskir eins og Orri Páll Ormarsson þreytast ekki að minnast á. Í því tilfelli fór markvörðurinn Carles Busquets langt út úr teignum og reyndi að ná stungusendingu Bryans Robson. Hughes varð naumlega á undan. Carles þessi er faðir Sergio Busquets sem gert hefur garðinn frægan með Barcelona síðustu árin. Í annarri umferð keppninnar hafði Barca mætt Fram. Barcelona vann 2:1 á Laugardalsvelli og 3:0 á Nývangi. Hreint ekki slæm úrslit fyrir áhugamennina í Fram.

Van Gaal fenginn frá Ajax

Þegar FC Barcelona kallaði á Cruyff árið 1988 hafði hann stýrt Ajax í þrjú ár. Þá hafði Marco Van Basten til að mynda blómstrað hjá Ajax og varð mesti markaskorari í Evrópu. Cruyff krukkaði hins vegar ekki í leikmannahópi Ajax þegar hann styrkti lið Barca. Koeman kom til dæmis frá PSV 1989 þótt hann hafi áður verið hjá Ajax og Romario kom einnig frá PSV.

Á sama tíma og hallaði undan fæti hjá Barca undir stjórn Cruyff náði Ajax fyrri hæðum undir stjórn Louis van Gaal. Ajax sigraði í Meistaradeildinni 1995 og fór aftur í úrslitaleikinn ári síðar en tapaði þá fyrir Juventus 2:1. Títtnefndur Vialli var þá kominn til Juve. Van Gaal bjó til frábært lið hjá Ajax og stór hluti liðsins kom úr yngri flokka starfi félagsins. Leikmenn sem urðu miklar stjörnur og má nefna Hollendingana Edwin van der Sar, Frank de Boer, Clarence Seedorf, Edgar Davids, Ronald De Boer, Marc Overmars og Patrick Kluivert. Flestir fremur ungir en dæmigert fyrir Ajax að ná árangri með slíkan kjarna. Fyrirliði liðsins var Danny Blind en hann er faðir Daley Blind sem var í stóru hlutverki í vetur þegar Ajax gerði atlögu að sigri í Meistaradeildinni.

Svo fór að FC Barcelona fékk Van Gaal til sín árið 1997 eftir stutt en árangursríkt stopp Englendingsins Bobbys Robsons. Van Gaal náði árangri hjá Barca og liðið varð meistari undir hans stjórn 1998 og 1999. Akkilesarhæll Van Gaal er hins vegar mannleg samskipti og því fjaraði undan honum þrátt fyrir ágætan árangur og flotta sýn á knattspyrnuna. Fjölmiðlamenn urðu þreyttir á honum og í leikmannahópnum varð vart við andúð á stjóranum. Brasilíumaðurinn Rivaldo taldi heppilegast að hann réði því hvar hann spilaði á vellinum en Rivaldo var á hátindi ferilsins. Úrslitin sýndu að Barca farnaðist best með hann vinstra megin á vellinum en hann hafði sínar hugmyndir um að hann ætti að vera fyrir aftan miðherjann eða sem svokölluð tía. Van Gaal bauð honum að sanna það fyrir sér í leikjum með varaliðinu.

Fimm stjörnu þjálfaranámskeið?

Ferli Louis van Gaal hjá Barca lauk árið 2000 en er enn eitt dæmið um tengsl Ajax og Barca. Van Gaal gekk reyndar full langt í að smíða brú þar á milli og smalaði saman of mörgum Hollendingum frá Amsterdam til Katalóníu. Sumir hverjir áttu takmarkað erindi í topplið eins og Barca þótt þeir hefðu staðið sig vel hjá Ajax. Katalónar eru ekki með myndir af Winston Bogarde, Michael Reiziger og Boudewijn Zenden hangandi úti um alla borg. Á móti kemur að Van Gaal gaf heimamönnum tækifæri í aðalliðinu sem urðu algerar goðsagnir hjá stuðningsmönnum Barca: Xavi, Carles Puyol, Andrés Iniesta og Victor Valdés.

Pep Guardiola og Luis Enrique.
Pep Guardiola og Luis Enrique. AFP

Eitt er sérlega áhugavert þegar tími Louis van Gaal hjá Barcelona er skoðaður. Jonathan Wilson segir í bók um FC Barcelona að magnað þjálfaranámskeið hafi í raun farið fram í herbúðum Barca á þessum tíma. Fullyrðir hann að aldrei hafi jafn margir menn verið samankomnir hjá einu liði á sama tíma sem áttu eftir að sinna jafn mörgum mikilvægum knattspyrnustjórastörfum. Jose Mourinho var í þjálfarateyminu hjá Hollendingnum en hann hafði komið til Barca sem túlkur fyrir Bobby Robson. Í liðinu voru Pep Guardiola, Luis Enrique, Laurent Blanc, Frank de Boer og Philip Cocu en ekki allir á sama tíma þó. Julen Lopetegui sem síðar stýrði spænska landsliðinu var varamarkvörður liðsins. Ronald Koeman kom auk þess til að vera aðstoðarþjálfari. Samansafn af mönnum sem fengið hafa eftirsóknarverð hlutverk sem knattspyrnustjórar. Guardiola hefur aldrei dregið dul á að hann sé undir áhrifum frá Van Gaal sem stjóri.

Eiður Smári keyptur af Ajax-manni

Ekki eru upptalin dæmin um Ajax-menn í stjórastöðunni hjá FC Barcelona. Harðjaxlinn Frank Rijkaard stýrði Barca í fimm ár en hann var ráðinn árið 2003. Johan Cruyff mælti með landa sínum og fyrrverandi leikmanni sínum hjá Ajax við Joan Laporta forseta félagsins. Pólitíkin í kringum íþróttafélagið Barcelona er mikil og of langt mál að fara út í þá sálma hér en forsetinn ræður afar miklu og er kosið um hann rétt eins og hjá Real Madrid. Cruyff var handgenginn Laporta og var áhrifamikill ráðgjafi hjá honum þótt Cruyff gegndi ekki formlegri stöðu hjá félaginu.

Rijkaard gætti þess að halda góðu sambandi við Cruyff enda átti hann honum ráðninguna að þakka. Nú er svolítið áhugavert að Rijkaard fór í fússi frá Ajax árið 1987 sem leikmaður vegna þess að hann þoldi ekki lengur knattspyrnustjórann. Sá stjóri var Johan Cruyff. Rijkaard kom aftur til Ajax sex árum síðar og var mikilvægur fyrir Ajax liðið sem varð Evrópumeistari 1995 undir stjórn Louis van Gaal.

Frank Rijkaard gefur Eiði Smára skipanir.
Frank Rijkaard gefur Eiði Smára skipanir. AFP

Með Rijkaard við stjórnvölinn vann Barca deildina 2005 og 2006. Liðinu tókst að vinna Meistaradeildina 2006 eftir úrslitaleik gegn Arsenal þar sem Svíinn skemmtilegi Henrik Larsson lagði upp bæði mörkin í 2:1 sigri. Larsson hélt á braut um sumarið og í hans stað keypti Rijkaard okkar mann, Eið Smára Guðjohnsen. Rijkaard stýrði liðinu tvö tímabil í viðbót en þá hallaði undan fæti. Stjörnuleikmaður liðsins Ronaldinho sinnti skemmtanalífinu af hörku og gaf eftir á vellinum. Hann hafði árin á undan sýnt frábæra takta hjá Barca en Brasilíumaðurinn var keyptur til liðsins þegar Barca missti af David Beckham sem gekk í raðir Real Madrid. Samuel Eto var einn þeirra sem var ósáttur við þann skort á aga sem mörgum þótti setja svip sinn á Barca á þessum tíma. Ýmislegt fleira gekk á og Deco átti til að mynda veikt barn og tók þátt í æfingum og leikjum eftir andvökunætur. Sumarið 2008 lét Rijkaard af störfum hjá FC Barcelona. 

Við þetta má bæta varðandi tengsl Ajax og Barcelona að viðmælandi SunnudagsMoggans á dögunum, Johan Neeskens, var í þjálfarateymi Rijkaard hjá Barca um tíma. 

Pressan í forgrunni

Nú erum við kominn ansi nálægt okkur í tíma og sparkunnendur þekkja ágætlega tíma Pep Guardiola sem stjóra Barcelona. Hann tók við sumarið 2008. En ágætt er að rifja upp að þótt lið Barcelona væri vel mannað þá hafði liðinu ekki gengið vel tvö ár á undan. Guardiola vann hins vegar þrennuna á fyrsta tímabili og í ljósi stöðunnar var það ekki lítið afrek. Heimamennirnir blómstruðu fyrir alvöru eins og Xavi og Iniesta sem voru arkitektarnir í leik liðsins. Ekki skemmdi heldur fyrir að Lionel Messi þróaðist úr efnilegum leikmanni í heimsklassamann. Eiður Smári lék töluvert hlutverk í þessu frækna liði 2008-2009 og þá sérstaklega í deildarleikjum. Ótrúlegt er til þess að hugsa að íslenskur leikmaður hafi mætt til vinnu í Barcelona með Xavi, Iniesta og Messi. 

Þótt Guardiola sé Katalóni en ekki Hollendingur þá gætti áhrifa frá Ajax, Michels og Cruyff þegar hann stýrði Barca. Guardiola lagði hvað mesta áherslu á að vinna boltann á ný sem allra fyrst eftir að liðið tapaði honum. Nokkuð sem rímar ágætlega við Total Football heimspeki Rinus Michels. En rétt eins og Michels þá hélt Guardiola miklum aga á leikmönnum sínum um leið og hann gaf þeim frelsi til að spila skemmtilega knattspyrnu. Vandrataður vegur sem mörgum reynist erfitt að halda sig á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert