María náði í víti og Noregur fór áfram

Maria Þórisdóttir fagnar sætum sigri í dag.
Maria Þórisdóttir fagnar sætum sigri í dag. AFP

Noregur er kominn áfram í 16-liða úrslit á HM kvenna í fótbolta eftir 2:1-sigur á Suður-Kóreu í Reims í dag. Hin íslenskættaða María Þórisdóttir náði í vítaspyrnu og lék allan leikinn fyrir Noreg. 

Noregur byrjaði með látum og var brotið á Maríu innan teigs strax á fimmtu mínútu. Caroline Hansen fór á punktinn og skoraði. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en á sjöttu mínútu seinni hálfleiks fékk Noregur annað víti. 

Brotið var á Hansen, sem gat ekki tekið vítið vegna meiðsla sem hún varð fyrir í leiðinni. Í staðinn fór Isabell Herlovsen á punktinn og skoraði. Eftir það sótti Suður-Kórea án afláts og Yeo Min-Ji minnkaði muninn á 78. mínútu. Nær komst kóreska liðið hins vegar ekki og er úr leik. 

Frakkar unnu riðilinn með fullt hús stiga eftir dramatískan sigur á Nígeríu, 1:0. Wendie Renard skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 79. mínútu. Renard fékk tvö tækifæri þar sem Chiamaka Nnadozie í marki Nígeríu steig af marklínunni er Rendard brenndi af fyrstu spyrnunni. 

Frakkland er komið áfram en Nígería þarf að bíða eftir öðrum úrslitum, til að fá úr því skorið hvort liðið fari áfram í sextán liða úrslit eða fari heim með sárt ennið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert