Marta tók fram úr Klose

Marta skoraði sigurmark Brasilíu.
Marta skoraði sigurmark Brasilíu. AFP

Marta var hetja Brasilíu í 1:0-sigri á Ítalíu í lokaumferð C-riðils á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta í kvöld. Hún skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 74. mínútu og tryggði Brasilíu sæti í sextán liða úrslitunum. 

Markið var það sautjánda hjá Mörtu í lokakeppni HM og er hún ein orðin markahæsti leikmaður sögunnar á HM, karla eða kvenna. Miroslav Klose skoraði sextán mörk fyrir Þjóðverja á HM karla á sínum tíma. 

Í sama riðli fór Samantha Kerr á kostum í 4:1-sigri Ástralíu á Jamaíka. Kerr skoraði öll mörk Ástralíu og sá til þess að liðið endar í öðru sæti riðilsins. Kerr skoraði tvö fyrstu og tvö síðustu mörk leiksins en Havana Marguerite minnkaði muninn á 49. mínútu þess á milli. 

Ítalía, Ástralía og Brasilía enduðu öll með sex stig í riðlinum. Ítalía tók toppsætið með fimm mörk í plús, Ástralía var í öðru sæti með þrjú mörk í plús og átta mörk skoruð og Brasilía í þriðja sæti með þrjú mörk í plús og sex mörk skoruð. Jamaíka lauk leik án stiga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert