Bandaríkin áfram eftir umdeildan dóm

Megan Rapinoe skoraði bæði mörk Bandaríkjanna úr vítaspyrnum.
Megan Rapinoe skoraði bæði mörk Bandaríkjanna úr vítaspyrnum. AFP

Bandaríkin eru komin áfram í átta liða úrslit á HM kvenna í fótbolta eftir 2:1-sigur á Spáni í sextán liða úrslitum í Reims í dag. Bæði mörk Bandaríkjanna komu úr vítaspyrnum og var sú seinni afar umdeild. 

Megan Rapinoe kom Bandaríkjunum yfir eftir aðeins sjö mínútna leik úr vítaspyrnu. Tveimur mínútum síðar jafnaði Jennifer Hermoso með glæsilegri afgreiðslu eftir mistök í vörn Bandaríkjanna og var staðan í hálfleik 1:1. 

Þannig var hún allt fram að 76. mínútu er Bandaríkin fengu aðra vítaspyrnu. Rose Lavelle fór þá afar auðveldlega niður innan vítateigs og eftir myndbandsdómaraúrskurð var dæmd vítaspyrna. Rapinoe fór aftur á punktinn og skoraði og tryggði Bandaríkjunum áfram. 

Bandaríkin leika við heimamenn í Frakklandi í átta liða úrslitunum á Parc des Princes í París næstkomandi föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert