Óbrotinn en liðböndin illa farin

Arnór Ingvi Traustason.
Arnór Ingvi Traustason. Ljósmynd/Malmö

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason leikmaður sænska liðsins Malmö er ekki fótbrotinn eins og menn óttuðust en Arnór meiddist illa á ökklanum eftir ljóta tæklingu leikmanns Djurgården í viðureign liðanna í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

Jesper Robertsson sjúkraþjálfari Malmö segir á heimasíðu Malmö í dag að myndataka hafi leitt í ljós að Arnór er óbrotinn.

„Við getum staðfest að það eru engin beinbrot á neðri fótleggnum né ökklanum. Það eru hins vegar alvarlegir áverkar á liðböndum í ökklanum. Arnór mun þegar hefja endurhæfingu en hann þarf ekki gangast undir aðgerð,“ segir sjúkraþjálfarinn.

Ekki liggur ljóst fyrir hversu lengi Arnór verður frá æfingum og keppni. Hann hefur komið við sögu í öllum 16 leikjum Malmö í deildinni á tímabilinu og hefur í þeim skorað tvö mörk. Malmö trónir á toppi deildarinnar, er með fjögurra stiga forskot á Kolbein Sigþórsson og félaga hans í AIK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert